Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði eftir fund forsætisráðherra Norðurlandanna á Egilsstöðum í gærkvöldi, að umsókn frá Íslandi um aðild að Evrópusambandinu myndi njóta stuðnings hinna Norðurlandanna.
Fréttaveitan Bloomberg hefur eftir Jóhönnu, að hugsanleg umsókn Íslands hafi verið rædd á fundi forsætisráðherranna og fengið afar jákvæðar undirtektir. Þrjú Norðurlönd, Danmörk, Finnland og Svíþjóð eru aðilar að Evrópusambandinu en Ísland og Noregur ekki.
Íslenska ríkisstjórnin lagði nýlega fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að sækja skuli um aðild að Evrópusambandinu. Tillagan er til meðferðar í utanríkismálanefnd þingsins.