Sjálfstæðismenn ráða úrslitum

Atkvæði sjálfstæðismanna kunna að ráða úrslitum um afdrif Icesavesamningsins þegar fjallað verður um ríkisábyrgðir vegna hans á Alþingi. Framsóknarmenn og Borgarahreyfingin ætla að óbreyttu að leggjast gegn samningnum. Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki, og Birgitta Jónsdóttir, Borgarahreyfingu, segja flokkana leggjast gegn samningnum og gagnrýna upplýsingagjöf til þingsins.

Fari svo að hluti af þingflokki VG leggist gegn ríkisábyrgðum eins og margt bendir til standa öll spjót á sjálfstæðismönnum. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagðist á föstudag ekki trúa öðru en því að þeir samþykktu ábyrgðirnar.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki trúa því að óreyndu að þingmenn fái ekki allar upplýsingar. Hann segir samninginn afar vondan og miklu verri en hann hélt þegar málið fór af stað. Hann segir að sjálfstæðismenn muni gera það sem þeir telji ábyrgt og skynsamlegt í stöðunni þegar allt verði tekið með í reikninginn.

Hópur fólks mótmælti Icesavesamningum á Austurvelli í dag. Fremur dræm þátttaka var í mótmælunum sem voru að mestu mjög friðsamleg. sex þátttakendur voru þó handteknir fyrir að trufla umferð og einn mótmælandi var ósáttur við að mega ekki flagga en lögregla skipaði honum að draga niður íslenska fánann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert