Ekki er hægt að leyfa takmarkaða umferð um Dyrhólaey í Mýrdal yfir varptímann, án þess að fuglalífi þar sé stefnt í hættu. Þetta er mat bænda í Dyrhólahverfi í Mýrdal sem eru ósammála mati Umhverfisstofnunar um hið öndverða. Í talningaskýrslu stofnunarinnar sem greint var frá í Morgunblaðinu á laugardag segir að sé haft eftirlit með allri umferð, hindranir settar upp og svo framvegis, ætti umferð ekki að koma að sök.
Bændur í Dyrhólahverfi segja að eftir að eyjan var friðlýst 1978 og henni lokað á varptímanum hafi þar byggst upp mikið fuglalíf. Umferð um eyna sumarið 1997 hafi þó haft mikil og skaðleg áhrif og er orsök þeirrar meginstaðreyndar að fuglalíf – þar með talið æðarvarp – í Dyrhólaey er mun minna en þegar best lét.