Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, segir uppboðið á sumarhúsalóðunum ganga vel. Í allt er talið að um hundrað manns séu á staðnum að fylgjast með uppboðinu sem nú fer fram rétt fyrir ofan Kerið í Grímsnesi.
Ólafur Helgi svaraði í símann á milli uppboða: „Það er bara örstutt í næsta boð,“ sagði hann. Hann býst við að uppboðinu verði lokið um klukkan hálftvö í dag.
„Það er talsvert boðið, við vorum að telja þetta út og okkur sýnist að yfir hundrað kort hafi farið út,“ sagði Ólafur Helgi og bætti við að á staðnum væri vel á annað hundrað manns þegar allt væri talið. Verðið fyrir hverja lóð er á bilinu 950 þúsund til 1.050 þús., að sögn Ólafs Helga. Hver lóð er rúmlega hálfur hektari að stærð.