100 tonnum af húseiningum stolið

Steypueiningar eins og þær sem stolið var.
Steypueiningar eins og þær sem stolið var.

Fjórum steypueiningum að andvirði 5,2 milljóna var stolið í Úlfarsárdal um síðustu helgi. Einingarnar áttu að mynda kjallara parhúss sem er í byggingu í hverfinu. Íbúi í nágrenninu sá síðast til eininganna síðastliðinn fimmtudag. Saman vega þær um hundrað tonn og er því töluverð fyrirhöfn að stela þeim.

„Þetta er mjög einkennilegt mál," segir Gunnar Ingi Arnarsson, húsbyggjandi og annar réttmætra eigenda kjallaraeininganna. Hann segir að til að stela einingunum þurfi í fyrsta lagi svokallaða einingaburðarvagna sem eru sérhannaðir til að bera einingarnar og styðja þær meðan þær bíða uppsetningar.

„Það þarf þennan vagn sem kostar tugi milljóna og ekki á færi allra að komast í," segir Gunnar. Þessir vagnar séu aðeins í eigu framleiðenda steypueininga af þessum toga. Að auki segir hann þurfa „vörubíl af stærstu gerð" sem geti borið bæði burðarvagnana og einingarnar sjálfan.

Gunnar kannast ekki við að nokkuð í líkingu við þetta hafi áður í byggingariðnaðinum og lögreglan hafi orðið nokkuð hvumsa þegar hann tilkynnti um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert