Ástand fuglalífs við Reykjavíkurtjörn er óviðunandi og sinnuleysið í garð fuglanna er í engu samræmi við mikilvægi þeirra fyrir borgarbúa. Þetta er niðurstaða höfunda nýrrar skýrslu um fuglalíf Tjarnarinnar árið 2008.
Varpstofni duggandar og æðarfugls hefur hnignað mjög við Tjörnina í Reykjavík og gargöndin, sem áður var tíður gestur í miðborginni, er að hverfa úr fuglafánu Tjarnarinnar. Stokkendur hafa hægt og bítandi sótt í sig veðrið og skúfandarstofninn hefur að mestu staðið í stað.
Fuglafána Tjarnarinnar hefur verið vöktuð flest ár frá árinu 1973 til þess að fylgjast með breytingum á stofnstærð og afkomu varpfugla við Tjörnina. Að mati skýrsluhöfunda getur ætisskortur að einhverju leyti útskýrt andaflóttann frá Tjörninni. Marflær eru horfnar úr tjörninni og vorflugur og mýflær sjást þar vart lengur.
Einnig getur skortur á öruggum varplöndum haft áhrif og einnig er mikið afrán á litlum ungum eftir að þeir koma á Tjörnina.
Í skýrslunni segir að tryggja þurfi öryggi andanna í friðlandinu, fóðra ungana kerfisbundið yfir sumartímann og bægja frá ógn úr háloftunum.