Icesave - samningur enn leyndarmál

Ríkisstjórn Íslands hefur beðið bresk og hollensk stjórnvöld um leyfi til að hægt verði að sýna Alþingi Icesave-samkomulagið í heild. Svar hefur ekki borist.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir ekki venjuna að birta slíka samninga í heild sinni en vegna stærðar og eðlis málsins hafiverið óskað skriflega eftir slíku leyfi. Ef svarið verði jákvætt verði samningurinn að sjálfsögðu gerður opinber. Steingrímur segist sjálfur telja að það sé vandasamt fyrir þingmenn að fjalla um samninginn ef leyfið fáist ekki.

Nefndarmönnum í þingnefndinni, sem fjallar um málið, verði þó í ölllu falli veittar allar upplýsingar í trúnaði. Það sé þó lakara en ef hægt væri að gera samninginn í heild sinni opinberan. Menn muni þó alltaf hafa allar þær upplýsingar sem máli skipta til að geta áttað sig á innihaldi og eðli samningsins. Þetta sé einungis spurning um ýmis lagaleg og viðskiptaleg atriði í samningnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka