Líkir láni bankastjóra við almenn lífeyrissjóðslán

Sigurður G. Guðjónsson.
Sigurður G. Guðjónsson. mbl.is/Ásdís

„Þetta er bara tekið af séreignarsparnaði Sigurjóns. Hann vantaði peninga. [...] Menn gleyma alltaf að horfa á að margir Íslendingar taka hluta af lífeyrissparnaði út í formi lífeyrissjóðslána sem þeir endurgreiða kannski á 20-25 árum með mánaðarlegum afborgunum og frekar lágum vöxtum,“ segir Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sigurjóns Þ. Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra Landsbanka Íslands, um samtals 70 milljóna króna lán á 3,5% vöxtum sem Sigurjón þarf ekki að greiða af fyrr en eftir 20 ár og þá í einu lagi.

Að sögn Sigurðar var ástæða þess að Sigurjóns gaf út veðskuldabréf upp á sjötíu milljónir króna í nóvember í fyrra einfaldlega sú að hann vantaði laust fé. „Hann var búinn að kaupa sér nýtt hús og var búinn að leggja út fyrir miklum kostnaði í endurbætur á því þegar hann missti vinnuna. Hann fékk engin laun á uppsagnarfresti auk þess sem hann sér móður sinni, systur og stjúpföður farborða og hefur gert lengi,“ segir Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sigurjóns.

Undanfarið hafa margir tekið út hluta séreignasparnaðar og greitt 37,5 prósent tekjuskatt af. Þannig þurfa þeir sem hafa tekið út eina milljón króna af lífeyrissparnaði, til þess að bjarga sér úr þrengingum, þurft að greiða 375 þúsund krónur í skatt til ríkisins, svo dæmi sé tekið. Lán Sigurjóns til sjálfs sín er ekki meðhöndlað sem eiginleg úttekt á séreignasparnaði. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins skiptir hins vegar ekki máli hvaða nafni löggerningar nefnast, heldur ræðst það af efni þeirra hvernig beri að meðhöndla þá. Þótt veðskuldabréfin séu sögð lán og meðhöndluð sem slík séu þau tekjuskattskyld ef þau beri öll merki úttektar á lífeyrissparnaði.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segist ekki geta tjáð sig um mál Sigurjóns þegar borið er undir hann hvort lánin séu tekjuskattskyld. „Almennar útborganir úr lífeyrissjóðum hljóta að koma til álita hvað varðar skattlagningu,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka