Nýr bæjarstjóri kynntur á mánudag

Gunnar Birgisson.
Gunnar Birgisson. mbl.is/Golli

Fundi bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknaflokksins í Kópavogi er lokið. Að sögn Ómars Stefánssonar, bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins og formanns bæjarráðs, verður tilkynnt um hver muni taka við af Gunnari Birgissyni, sem bæjarstóri Kópavogs, á mánudag.

„Ég mun kynna þessar smávægilegu breytingar inni í fulltrúaráði. Við munum boða fund á mánudaginn, bæði hjá okkur og sjálfstæðismönnum,“ segir Ómar í samtali við mbl.is. Aðspurður segir hann að það muni koma í ljós á mánudag hver muni taka við af Gunnari sem bæjarstjóri.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að á fundinum í hádeginu í dag hafi verið rædd þau mál sem séu framundan í samstarfi flokkanna. „Við höfum staðið heilshugar á bak við Gunnar. Hann hefur gert gríðarlega mikið fyrir Kópavog og þess vegna hefðum viljað sjá hann áfram í stólnum. En hins vegar hafa mál skipast með þeim að samstarfið gengur ekki upp öðruvísi en hann stígi úr stól bæjarstjóra.“ 

„Það er alveg ljóst að Gunnar Birgisson hefur tekið hagsmuni flokksins fram yfir eigin hagsmuni. Og við virðum það mikils við hann,“ segir Ármann aðspurður.

Gunnar hafi axlað mikla ábyrgð svo flokkarnir gætu haldið samstarfinu áfram.

Þá segir Ármann að ekki sé búið að ákveða endanlega hver muni setjast í bæjarstjórastólinn. Málið verði kynnt á mánudag sem fyrr segir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert