Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir framkomu Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, á Alþingi í dag óásættanlega. Þá sló Ásta ótæpilega oft á bjöllu sína og rak þingmanninum úr ræðustól. Þingflokkur Framsóknarflokksins mun funda með forsetanum á næstunni.
Sigmundur kvaddi sér hljóðs undir liðnum fundarstjórn forseta á Alþingi í dag. Ásta Ragnheiður taldi, þegar nokkuð var liðið á ræðu Sigmundar, að hann væri alls ekki að ræða um fundarstjórn sína og barði stanslaust í bjöllu sína þar til hann yfirgaf ræðustól.
Sigmundur segir slíkan einleik á bjölluna fáheyrðan. Árum og jafnvel áratugum saman hafi þingmenn tjáð sig undir liðnum fundarstjórn forseta. Hann segir sjálfstæðismenn m.a. hafa nýtt sér þetta mörg hundruð sinnum á síðasta þingi.
Eftir að Sigmundur var hrakinn úr ræðustól undir bjölluhljóm kom Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, í ræðustól, mótmælti framkomu forseta Alþingis og krafðist þess að þingflokkur Framsóknarflokks fengi fund með forsetanum.
Sá fundur hefur ekki farið fram en verður væntanlega í þessari viku. Þar mun Sigmundur koma sínum skoðunum á framfæri.