Ók ofurölvi og undir áhrifum kókaíns

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í fimm mánaða fangelsi fyrir ítrekuð umferðarlagabrot en maðurinn stal m.a. bíl og ók honum um götur borgarinnar þar til hann lenti á flutningabíl. Maðurinn reyndist vera ölvaður og undir áhrifum kókaíns. 

Þetta gerðist í janúar. Á leiðinni ók maðurinn m.a. gegn rauðu ljósi og yfir umferðareyju á Höfðabakka þar sem hann lenti á kyrrstæðum bíl. Hann hélt síðan áfram eftir Vesturlandsvegi þar sem hann ók á flutningabílinn.

Við þennan árekstur varð bíllinn óökufær en maðurinn reyndi að komast undan á hlaupum. Vegfarendur stöðvuðu hann og héldu honum föstum þar til lögregla kom.

Auk þessa var maðurinn sakfelldur fyrir að  aka bíl nú í mars og var hann þá undir áhrifum amfetamíns.  Loks var hann sakfelldur fyrir þjófnað. 

Maðurinn játaði sakir. Hann  hefur áður fengið sektir og dóma fyrir umferðarlagabrot og ölvunarakstur og verið sviptur ökuréttindum ævilangt. Þá hefur hann verið dæmdur fyrir líkamsárás, húsbrot og eignarspjöll, nytjastuld og þjófnað. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka