Ríkið stígur fyrsta skrefið á langri ferð

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra mun í dag kynna fyrir ríkisstjórninni aðgerðir í ríkisfjármálum sem miða að því að ná fram markmiðum sem sett voru fram í efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) og íslenskra stjórnvalda eftir hrun bankakerfisins síðastliðið haust.

Fyrsta skrefið af mörgum í ríkisfjármálunum verður þar með stigið. Fyrir liggur að brúa þarf um 20 milljarða gat á þessu ári miðað við það sem áður var áætlað. Á fjárlögum fyrir árið í ár var gert ráð fyrir að fjárlagahallinn yrði rúmlega 150 milljarðar en nú bendir allt til þess að hann verði milli 170 og 180 milljarðar.

Þennan mun ætlar ríkisstjórnin fyrst og fremst að brúa með skattahækkunum en einnig með því að skera niður útgjöld. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins verður ráðuneytum gert að draga saman rekstrarútgjöld um eitt prósent a.m.k. á þessu ári sem kemur til móts við hækkun skatta. Sé mið tekið af heildarrekstrargjöldum ráðuneyta ættu að sparast 2 til 3 milljarðar króna með þessum niðurskurði. Þar mun mest mæða á heilbrigðis- og menntamálaráðuneytinu enda útgjöldin þar mest.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa margir þeirra sem tekið hafa þátt í viðræðum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir í efnahagsmálum talið að lengra þurfi að ganga í niðurskurði. Þetta á ekki aðeins við um fulltrúa aðila vinnumarkaðarins, heldur einnig þingmenn í stjórnarflokkunum báðum.

Áherslan hefur hins vegar verið lögð á að halda áætluninni sem lagt var upp með í samstarfi við IMF. Samkvæmt henni er ráð fyrir því gert að ríkissjóður verði hallalaus í lok árs 2012. Niðurskurðaráform muni fyrst og fremst koma fram í fjárlögum næsta árs og árunum tveimur þar á eftir.

Skattahækkunum og þar með auknum tekjum ríkisins er því ætlað standa undir um 80% af því sem þarf til að brúa fyrrnefnt 20 milljarða bil á þessu ári.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert