Stýra þarf skipinu af varfærni

Franek ásamt Mark Flanagan.
Franek ásamt Mark Flanagan. Eggert Jóhannesson

Franek Rozadowzki, fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) á Íslandi, segir að næstu tveir mánuðir verði mikilvægir fyrir endurreisn íslensks efnahags. Vísaði hann þar sérstaklega til enduruppbyggingar bankanna, þ.e. aðskilnaðinum á milli gömlu og nýju bankanna. „Þegar því er lokið [aðskilnaðinum innsk. blm.] þá er hægt að hefja endurbyggingu bankanna," sagði Franek á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga á Grand Hóteli í gær. Staða efnahagsmála hér á landi væri því tekin að skýrast.

Hann sagði áætlun íslenska ríkisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins byggjast öðru fremur á því að ná stöðugleika í gjaldeyrismarkaði, og takmarka skuldir íslenska ríkisins vegna hruns bankanna. Hann lagði áherslu á að áætlunin væri til langtíma. Í svari sínu við fyrirspurn úr sal, sagði Franek að „stýra þyrfti skipi af varfærni í ólgusjó". Í þannig aðstöðu væri Ísland nú. Háir stýrivextir og gjaldeyrishöft væru fyrir hendi vegna þeirrar djúpu kreppu sem hér hefði myndast við hrun bankakerfisins. Vextirnir þyrftu að vera háir, 12 prósent nú, og gjaldeyrishöftin að vera fyrir hendi til þess að koma í veg fyrir „hörmulegar" afleiðingar af frekara falli krónunnar. Skuldastaða heimila í landinu væri alvarleg, meðal annars vegna verðtryggðra lána, en í raun væri staða sveitarfélaga og fyrirtækja verri. Erlend lán væru hjá þeim algeng og við afnám gjaldeyrishafta, eða of hraða lækkun vaxta, gæti skuldastaðan versnað til muna.

Franek sagðist telja að þegar gjaldeyrishöftin yrðu afnumin þyrfti að reikna með því að ganga myndi verulega á gjaldeyrisforðann. Ekki væri því hægt að afnema höftin nema full vissa væri fyrir stöðugleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert