„Við höfum alltaf gert okkur grein fyrir því að ef menn ætla að lækka halla ríkissjóðs um 150 milljarða, þá munu skattahækkanir verða hluti af því. Við í Samtökum atvinnulífsins höfum líka gert okkur grein fyrir því að atvinnuleysið yrði bara fjármagnað með álögum á atvinnulífið. Það hefur alltaf verið þannig og við höfum ekki reiknað með að það yrði nein breyting á því,“ segir Vilhjálmur Egilsson.
„Þeim hækkunum sem því fylgja munum við þurfa að taka eins og hverju öðru hundsbiti. Auðvitað hefur það afleiðingar fyrir verðlagið og veikir getu atvinnulífsins til að skapa störf,“ bætir hann við.
Vilhjálmur segir ekkert vit í því að hækka skatta á minnkandi skattstofna. „Þess vegna skiptir það ofurmáli að menn passi upp á skattstofnana og gæti þess að atvinnulífið falli ekki niður. Við hömrum því stöðugt á grundvallaratriðunum sem eru vextirnir, gjaldeyrishöftin og bankarnir. Ef þessir hlutir verða ekki í lagi þá erum við eingöngu að hækka skatta á minnkandi skattstofna og verðum komin í nákvæmlega sömu vandræðin eftir eitt ár,“ segir Vilhjálmur.
Að sögn hans liggur ekki endanlega fyrir hverjar hækkanirnar verða en ljóst sé að um mjög mikla hækkun verði að ræða. „Meginmálið í okkar huga er ekki hvort þetta hækkar einhverri kommu úr prósenti meira eða minna, heldur hvernig heildarpakkinn lítur út. Eru menn að tryggja viðgang atvinnulífsins á næsta ári og passa upp á að skattstofnarnir minnki ekki?“ segir Vilhjálmur.