„Þetta jaðrar við brjálæði“

Gunnar I. Birgisson segir Sjálfstæðismenn styðja sig til áframhaldandi forystu …
Gunnar I. Birgisson segir Sjálfstæðismenn styðja sig til áframhaldandi forystu í Kópavogsbæ. mbl.is/Golli

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, mun starfa áfram sem forystumaður Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi þegar hann lætur af störfum sem bæjarstjóri. Aðspurður segir Gunnar að það liggi ekki fyrir að svo stöddu hvenær hann muni formlega láta af embætti.

Samkvæmt meirihlutasamningi Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins mun sjálfstæðismaður setjast í bæjarstjórastólinn, segir Gunnar. Það eigi eftir að komast að niðurstöðu í því máli og sú niðurstaða verði lögð fyrir á fulltrúaráðsfundi á mánudag.

„Ég mun hætta fljótlega, eða stíga til hliðar. Ég verð hér sem forystumaður flokksins í Kópavogi og verð í bæjarstjórn og bæjarráði,“ segir Gunnar og bætir við að hann hafi fengið mikinn stuðning frá sínum samflokksmönnum.

Segir skýrslu Deloitte vera „drasl“

„Það er búið að sækja mjög hart að mér. Búinn að vera nánast í einelti. Þetta jaðrar við brjálæði, bæði fjölmiðlar og annað. Út af viðskiptum fyrirtækja dóttur minnar við Kópavogsbæ, sem ég hef náttúrulega ekkert komið nálægt. Aðrir starfsmenn ákváðu að hafa þau viðskipti. Auðvitað þykir manni þetta afar ósanngjarnar málalyktir. Svo var pöntuð skýrsla til úttektar á þessu frá Deloitte, sem er nú greinilega pantað af pólitískum toga,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is.

Hann segir að skýrslan sé „drasl“. „Ótrúlegt að svona fyrirtæki, sem gefur sig út að vera eitthvert virt endurskoðunarfyrirtæki, gefur út svona skýrslu,“ segir Gunnar og bætir við að hún sé illa unnin, full af getgátum og rangfærslum. 

Gunnar fékk lögmannsstofuna Lex til að veita lögfræðilegt álit á þeim ályktunum, sem Deloitte hefur dregið um háttsemi bæjarstjórans. Þar kemur fram að Kópavogsbæ hafi ekki verið skylt að bjóða út verk- eða þjónustukaup sem samið var um við Frjálsa miðlun og fjallað var um í skýrslu Deloitte í síðustu viku.

Deloitte sagði í skýrslu sinni, að viðskipti Kópavogs við Frjálsa miðlun séu hugsanlega brot  á lögum um opinber innkaup þar sem ekki hafi verið gerður hagkvæmnissamanburður eins og skuli gera samkvæmt sömu lögum.

„Á þessari skýrslu grundvallaði Framsóknarflokkurinn sína afstöðu, og boðaði fund mjög fljótlega eftir að hún kom út. Hún kom út á þriðjudaginn og fundur á fimmtudaginn. Menn voru ekki búnir að melta skýrsluna. Núna þegar menn eru búnir að fara betur yfir skýrsluna þá sjá menn hvað hún hefur verið illa unnin, ónákvæm og sett fram í pólitískum tilgangi,“ segir Gunnar. Aðspurður segist hann hafa vonast til þess að framsóknarmenn gæfu sér lengri tíma til að hugsa málið.

Þá ítrekar Gunnar að skýrsla Deloitte sé „drasl og þeim til skammar. Þegar búið er að fara í gegnum hana þá stendur ekki steinn yfir steini.“

Spurður um ábyrgð og hvort hann hafi axlað hana segir Gunnar: „Ég hef ekki talið mig gera neitt rangt í þessu máli.“

Hann segist stefna að því að gera úttekt á verkum bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar þegar hann hefur störf sem óbreyttur bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. „Það er alveg ljóst að öll mannanna verk eru ekki hafin yfir gagnrýni, og ekki þeirra heldur. Við þurfum að fara yfir það líka nákvæmlega eins og það er búið að fara yfir mín störf. Menn eiga helst ekki að henda grjóti úr glerhúsi,“ segir Gunnar og tekur fram að ekki sé um neinar hótanir að ræða. Fara verði yfir málin á málefnanlegum grunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert