143 stúdentar útskrifast frá MA

Útskrift MA á þjóðhátíðardaginn að vanda. Hópmyndataka í Stefánslundi á …
Útskrift MA á þjóðhátíðardaginn að vanda. Hópmyndataka í Stefánslundi á lóð MA að lokinni útskrift í íþróttahöllinni. Jón Már Héðinsson skólameistari er í fremstu röð. Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson

Menntaskólanum á Akureyri var slitið í dag. Skólameistari Jón Már Héðinsson brautskráði 143 stúdenta. Svala Lind Birnudóttir var með hæstu einkunn á stúdentsprófi.

Flestir stúdentar útskrifuðust af félagsfræðibraut, 71, 24 af málabraut, 48 af náttúrufræðibraut, þar af 16 af eðlisfræðilínu og einn jafnframt af tónlistarkjörsviði listnámsbrautar. Að þessu sinni var enn fremur brautskráður fyrsti hópur nemenda sem komu í skólann rakleitt úr 9. bekk grunnskóla.

Meðaleinkunn á stúdentsprófi var 7,44. Dux scholae, með hæstu einkunn á stúdentsprófi sem er meðaltal allra prófseinkunna í skólanum, er Svala Lind Birnudóttir af málabraut með einkunnina 9,31. Næsthæstu einkunn á stúdentsprófi hlaut Kristín Sigurðardóttir af félagsfræðibraut, 9,23. Í þriðja sæti varð Inga Helgudóttir Ingulfsen af félagsfræðibraut, með 9,14 og í fjórða sæti var Kristján Godsk Rögnvaldsson af náttúrufræðibraut, 9,05. Fjölmargir nemendur hlutu verðlaun og viðurkenningar fyrir námsárangur og störf í þágu skólans.

Í vetur voru nemendur skólans 726. Miklar kröfur eru gerðar til nemenda og sérhver einkunn reiknast að lokum til stúdentsprófs. Langbestum árangri eftir bekkjum náðu Hallfríður Kristinsdóttir sem var hæst fyrstubekkinga með 9,9 í meðaleinkunn á skólaárinu.

Skólameistari fjallaði í ræðu sinni um það mikla starf sem í skólanum hefur verið unnið að því að endurskoða og bæta skólaskipan og laga hana að nýjum lögum um framhaldsskóla. Hann tók fram að allir starfsmenn og nemendur hefðu lagt til málanna og niðurstaðan væri sú að vernda heildarhagsmuni nemenda og skólans, leggja áherslu á breiða almenna menntun með markvissu starfi, nýta kosti bekkjakerfisins og auka svigrúm nemenda til að móta sjálfir stúdentspróf sitt, sem stæðist hæstu gæðakröfur.

Jón Már fjallaði um fjárveitingar til skólans og kvaðst vongóður um að með nýju verklagi yrðu þær tryggari en verið hefur. Skólinn hefði verið afar vel rekinn og samkvæmt ströngum reglum og það væri lykilatriði að ríkisvaldið tæki tillit til þess og léti skólann njóta þess en ekki gjalda óreiðu annarra stofnana.

Í skólanum hefur verið unnið að margvíslegum þróunar- og framfaramálum og gerði skólameistari nokkra grein fyrir þeim eldmóði og metnaði starfsmanna sem einkenndi starfsandann í skólanum. Aukin áhersla væri lögð á þverfaglegt starf og skýrasta dæmið um það væri ferðamálakjörsviðið, sem hefði hlotið Evrópumerkið fyrir framsýni og nýjungar og kennarar væru boðaðir til að kynna það víða um heim. Fleiri samstarfsverkefni kennara væru í gangi auk þróunarstarfs um almenna námsbraut hraðlínu og stoðlínu, sem unnið hefði verið að. Meðal annars hefði af þessum tilraunum leitt að í nýju skólakerfi sé stefnt að því að skóladagurinn verði vinnudagur þar sem nemendur geti að mestu lokið því sem hingað til hefur verið kallað heimanám.

Fulltrúar afmælisárganga ávörpuðu samkomuna og færðu skólanum kveðjur og gjafir. Fyrst skal nefna Huldu Kristjánsdóttur, sem lauk stúdentsprófi frá MA fyrir 70 árum. Fulltrúi 60 ára stúdenta var Steinunn Bjarman, Halldór Blöndal var fulltrúi 50 ára stúdenta, Ragnheiður Ríkharðsdóttir talaði fyrir hönd 40 ára stúdenta, Þuríður S. Árnadóttir fyrir hönd 25 ára stúdenta og fulltrúi 10 ára stúdenta var Þórir Sigmundsson.

Í lokaorðum til nýstúdenta minnti Jón Már þá á að rækta sig áfram undir því formerki sem þeir hefðu sýnt hér í skóla, að setja sér verðug markmið. Hamingju öðlaðist enginn nema fyrir eigin kraft. Hann þakkaði þeim góða samveru og bauð þeim að leita til skólans hvenær sem á þyrfti að halda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert