Eyðilagði íbúðarhúsið

Meira en helmingur hússins við Hólmatún var kurlaður niður.
Meira en helmingur hússins við Hólmatún var kurlaður niður. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Húseigandi á Álftanesi var handtekinn og færður til skýrslutöku á lögreglustöð eftir að hann hafði stórskemmt hús sitt með gröfu og grafið bíl sinn á lóðinni. Kvikmyndatökumenn tóku atburðinn upp, að beiðni mannsins.

„Ég var inni í bílskúr og heyrði einhverja skruðninga. Þá stóð grafa upp úr miðju húsinu. Hann var búinn að rústa húsinu og grafa bílinn sinn niður,“ segir Árni Már Björnsson, íbúi við Hólmatún sem varð vitni að eyðileggingu hússins. „Þetta hefur verið úthugsað því hann kom með gröfuna í gærkvöldi og var búinn að panta myndatökumenn,“ bætir hann við.

Lögreglunni barst tilkynning rétt fyrir klukkan fjögur í dag um að maður væri með stóra beltagröfu að brjóta niður hús við Hólmatún á Álftanesi. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var maðurinn á leið í burtu.

Húsið er einbýlishús úr timbri með bílskúr, svokallað kanadískt einingahús. Það er mikið skemmt ef ekki ónýtt. Búið er að brjóta í sundur helming þess. Jafnframt gróf maðurinn holu, setti bíl þar í og gróf yfir hluta hans.

Húsið er tæplega 180 fermetrar að stærð með bílskúr. Brunabótamat eignarinnar er rúmlega 50 milljónir kr.

Óheimilt er að rífa hús nema með leyfi skipulagsyfirvalda. Það leyfi mun ekki hafa legið fyrir.

Hópur fólks fylgdist með, meðal annars nágrannar.

Kvikmyndatökumenn frá Kukl ehf. fylgdust með framkvæmdinni, að beiðni mannsins. Bjarni Felix Bjarnason kvikmyndagerðarmaður segist ekki hafa skýringar málinu. Fyrirtækið hafi verið beðið um að mynda framkvæmd á þessum stað. Maðurinn hefði látið gröfuna vaða beint í húsið og verið að í mesta lagi tíu mínútur.

Nágrannar telja að maðurinn hafi verið búinn að missa húsið vegna fjárhagserfiðleika . „Það hlýtur eitthvað þannig að vera. Það er sorglegt að sjá þetta gerast í næsta húsi,“ sagði Árni Már.

Frá því atburðurinn spurðist út hefur verið mikil umferð um götuna.

www.mats.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert