Heyjum á ný sjálfstæðisbaráttu

Austurvöllur skartaði sínu fegursta þegar hátíðarhöld vegna 17. júní hófust …
Austurvöllur skartaði sínu fegursta þegar hátíðarhöld vegna 17. júní hófust þar. mbl.is/Eggert

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í ávarpi á Austurvelli í dag, að Íslendinga heyi á ný mikla sjálfstæðisbaráttu.

„Á þessum stað fyrir 65 árum var staðfestur sigur Íslands sem fullvalda og sjálfstæðrar þjóðar. Sjálfstæðisbaráttunni var þó ekki lokið þann dag og margir fleiri sigrar, sem eflt hafa sjálfstæði okkar, hafa unnist síðan þá... Sú barátta heldur áfram og segja má að í dag, þann 17. júní árið 2009 heyjum við á ný mikla sjálfstæðisbaráttu. Baráttu, sem engan hafði órað fyrir að við stæðum andspænis," sagði Jóhanna.

Sagði Jóhanna, að þessi sjálfstæðisbarátta snúist að verulegu leyti um hvernig Íslendingar þrói samskiptin við aðrar þjóðir og hvernig þeir nái að byggja upp samstöðu og sátt í því uppbyggingarstarfi, sem framundan er. 

„Íslenskir útrásarvíkingar höfðu farið víða um í miklum græðgis- og óhófsham og skilið eftir sig rústir, ekki einungis hér á landi heldur einnig  í öðrum löndum. Stjórnvöld og eftirlitsstofnanir okkar sýndu við þessar aðstæður of mikið andvaraleysi. Afleiðingarnar fyrir atvinnulífið og heimilin í landinu þekkja allir... Ágirnd villti okkur sýn um stund og olli blindri trú á meinta snilli okkar í að kaupa og selja verðbréf og eignir víða um heim. Við gengum of hratt fram og við gengum fram af mörgum okkar mestu og bestu vinaþjóðum. Við verðum að endurvinna traust þeirra og virðingu og ég hef þá trú að okkur sé að takast það," sagði Jóhanna.

Jóhanna sagði að þær ákvarðanir, sem stjórnvöld þyrftu nú að taka væru flestar erfiðari og þungbærari en orð fái lýst. Þannig væri sú ákvörðun að ganga til samninga vegna Icesave-reikninganna væri afar erfið en óhjákvæmilegt. Ef skuldbindingunni hefði verið hafnað einhliða hefði verið raunveruleg hætta á að Ísland einangraðist á alþjóðavettvangi, markaðir myndu lokast og lánamöguleikar yrðu að engu. Slíkt myndi valda almenningi og atvinnulífinu ófyrirsjáanlegum skaða til frambúðar.  Jóhanna sagði fráleitt, að samningarnir skerði fullveldi þjóðarinnar eða umráðarétt hennar yfir auðlindunum, eins og sumir héldu fram.

Þá sagði Jóhanna, að Íslendingar yrðu nú sem aldrei fyrr að vera raunsæir og takast á við þá erfiðleika sem við blöstu af festu og samhug. „Næsta ár verður okkur erfiðara en mörg ár á undan og við munum öll finna fyrir því, með einum eða öðrum hætti, því miður. Hver og einn hefur hlutverki að gegna í því uppbyggingarstarfi sem framundan er. Hér er framtíð barna og ungmenna í húfi  og þar með framtíð lands okkar og sjálfstæðis," sagði Jóhanna. „Við verðum að vekja og efla jákvæða sýn á þau tækifæri sem hér bjóðast. Við veðrum að koma í veg fyrir að við missum frá okkur þann mikla mannauð, sem býr í okkur sjálfum og afkomendum okkar."

Ræða forsætisráðherra.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, lagði blómsveig að minnismerki Jóns …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, lagði blómsveig að minnismerki Jóns Sigurðssonar. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert