„Lýðveldið er veikara en nokkru sinni og nú vofir yfir sú hætta að þjóðin verði að ósekju hneppt í skuldaánauð. Það má ekki gerast,“ sagði Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi og formaður þjóðhátíðarnefndar Reykjavíkur, við setningu þjóðhátíðar á Austurvelli.
Kjartan rifjaði upp stofnun lýðveldisins fyrir 65 árum, baráttu Jóns Sigurðssonar og áföllin sem dunið hafi yfir frá því þjóðhátíð var haldinn 17. júní í fyrra. „Áföllin voru mörg og þung, sum nánast óskiljanleg, hver sögulegi viðburðurinn elti annan - meðal annars hér á Austurvelli - og geðshræring, ótti og bræði settu mark sitt á samfélagið,“ sagði Kjartan.
„Sjálfstæðisbaráttunni lauk ekki fyrir 65 árum. Henni hefur aldrei lokið og máske aldrei verið harðari en einmitt þessa dagana,“ sagði Kjartan.