Jón Gerald Sullenberger hefur undanfarna mánuði unnið að því að undirbúa að setja á laggirnar nýja lágverðsverslun hér á landi.
Jón Gerald sagði í samtali við Morgunblaðið að það styttist í að hann gæti kynnt hvenær verslun hans yrði opnuð. „Allur undirbúningur er kominn vel á veg og ég vonast til þess á næstu vikum að geta sagt til um hvenær við ætlum að opna,“ sagði Jón Gerald.
Jón Gerald sagði að þar sem undirbúningur væri kominn svona vel á veg væri að því komið að „velja barninu nafn. Því höfum við ákveðið að efna til hugmyndasamkeppni um nafn á nýrri lágverðsverslun okkar,“ sagði Jón Gerald. Hann sagði að margar tillögur hefðu þegar borist um nafn, en engu að síður vildi hann fá neytendur í lið með sér og kveðst ætla að verðlauna vinningshafann með 50 þúsund króna vöruúttekt, þegar verslunin verður opnuð, vonandi í júlímánuði.
Jón Gerald biður þá sem vilja leggja honum lið í nafnaleitinni að senda tillögu á smartkaup@gmail.com