Stuðningur orðum aukinn

Gunnar Birgisson kemur á fund fulltrúaráðsins í fyrrakvöld.
Gunnar Birgisson kemur á fund fulltrúaráðsins í fyrrakvöld. mbl.is/Golli

Það var klofinn fundur í fulltrúaráði Sjálfstæðisfélaganna í Kópavogi, sem í fyrrakvöld fól bæjarfulltrúum flokksins að semja um áframhaldandi samstarf við framsóknarmenn. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur það mjög verið orðum aukið hversu eindreginn stuðning Gunnar I. Birgisson, fráfarandi bæjarstjóri, fékk til áframhaldandi setu í því embætti. Hið rétta sé að fundarmenn hafi lýst ánægju með störf hans fyrir bæinn á undanförnum árum, en fundurinn hafi hins vegar verið algerlega klofinn í því hvort hann skyldi sitja eða víkja núna.

Þá kom fram í gær að á fundinum hafi Gunnar sjálfur flutt tillöguna, sem fól í sér fyrrnefnda niðurstöðu. Hið rétta er að Tryggvi M. Þórðarson, einn fulltrúi Sjálfstæðisfélags Kópavogs á fundinum, lagði fram dagskrártillögu þess efnis á meðan Gunnar flutti ræðu og voru greidd atkvæði um hana þegar hann hafði lokið máli sínu. Niðurstaða fundarins var því ekki komin fram fyrir tilstilli Gunnars sjálfs. „Við virðum Gunnar fyrir hans störf en fundurinn gaf honum í rauninni gult spjald,“ segir fundarmaður úr Sjálfstæðiskvennafélaginu Eddu.

Áður hafði fundurinn að sögn heimildarmanns skipst í tvennt. Önnur fylkingin taldi algerlega óviðunandi að slíta meirihlutasamstarfinu eftir 19 ár, í ljósi erfiðra aðstæðna í rekstri bæjarfélagsins og þá alls ekki vegna þess að einn maður ætti í vök að verjast vegna ásakana um spillingu. Skapa þyrfti frið til að sinna fjölmörgum erfiðum viðfangsefnum.

Hinir vildu samþykkja harðorða stuðningsyfirlýsingu við Gunnar, sem hefði í raun veitt honum heimild til að slíta meirihlutasamstarfinu, frekar en að láta framsóknarmenn þvinga sig úr embætti bæjarstjóra.

Gunnsteinn bæjarstjóri?

Sem fyrr segir kvað niðurstaða fundarins á um að bæjarfulltrúarnir skyldu semja við framsóknarmenn. Furðuðu viðmælendur sig því í gær á því að Gunnar einn hefði fundað með oddvita Framsóknarflokksins. Fulltrúaráðsfundurinn hefði ekki veitt honum umboð til þess.

Enn hefur ekki verið gefið upp hver verður næsti bæjarstjóri í Kópavogi en telja má líklegt að margir sjálfstæðismenn telji niðurstöðu síðasta prófkjörs eiga að gilda. Bæjarstjóri verði samkvæmt því Gunnsteinn Sigurðsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert