Tjón á bílum um 40% færri

Tjón á bílum vegna umferðaróhappa voru að meðaltali 41 prósenti færri fyrstu fimm mánuði þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra. Fækkun slasaðra fyrstu fimm mánuði þessa árs var hins vegar miklu minni en fækkun tjóna, eða 13 prósent, að því er Einar Guðmundsson, forstöðumaður Forvarnahússins, greinir frá.

„Minniháttar árekstrum hefur að minnsta kosti fækkað en fækkun á árekstrum sem fólk slasast í er minni,“ segir hann.

Tjónunum fór að fækka verulega í mars, þegar verð á olíu og bensíni var farið að hækka verulega, og ástandið hélst svipað út árið. Undanfarna fjóra mánuði hefur tjónum fækkað enn frekar, að sögn Einars, sem notar tölur frá Sjóvá við útreikningana og uppfærir miðað við markaðshlutdeild.

Samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar var umferðin fyrstu fimm mánuði ársins svipuð og síðastliðin þrjú ár. Á suðvesturhorni landsins, þar sem 70 til 75 prósent óhappanna verða, var hún þó 5 prósentum minni í maí en hin árin.

Um mögulega skýringu á færri tjónum segir Einar: „Umferðarhraðinn hefur minnkað auk þess sem fólk hefur meiri tíma núna í efnahagslægðinni. Það er meiri streita í umferðinni þegar uppgangur er í þjóðfélaginu. Núna þarf fólk ekki að vera komið á fund fyrir ákveðinn tíma og keyrir ekki eins og brjálæðingar,“ segir Einar.

Þegar augljóst var í fyrra að tjónum fór fækkandi var rætt um að lækka iðgjöldin, að því er Einar greinir frá.

„Þá voru menn á því að kominn væri tími til að lækka þau en með hækkuðu gengi hækkaði verð á varahlutum gríðarlega og þar með viðgerðarkostnaðurinn. Þess vegna var ekki hægt að lækka iðgjöldin þá.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert