Kostnaður við byggingu menningarhúss og kirkju í Mosfellsbæ getur orðið á bilinu 1.500 til 2.000 milljónir að sögn Haralds Sverrissonar bæjarstjóra. Ekkert er þó fast í hendi enn og segir hann að eftir sé að ákveða hvernig kostnaður deilist milli bæjarins og Mosfellsprestakalls. Líklegt er að skipt verði til helminga eða þar um bil.
„Þetta er ekki verkefni sem verður hrist fram úr erminni,“ segir Haraldur en hönnunartillaga sem nýverið var ákveðið að byggja á gerir ráð fyrir 6.000 fermetra byggingu. Haraldur segir að framkvæmdin gæti tekið tíu ár og kostnaðurinn muni dreifast á þann tíma.