„Bankahrunið er hryðjuverk og ég framdi skemmdarverk á móti,“ segir Björn Mikaelsson sem reif einbýlishús sem hann byggði árið 2003 með skurðgröfu á þjóðhátíðardaginn segist hafa lagt á ráðin um að gera það frá áramótum.
Hann hafi ekki verið að skemmta sér þótt verkið hafi ekki verið framið í geðshræringu. Reyndar hafi honum ekki liðið vel. Björn missti húsið til bankans eftir að hafa búið þar með fjölskyldu sinni í fimm og hálft ár.
Björn segist vilja nágranna sína afsökunar á ónæðinu, hann hafi ekki vitað að það yrði svona mikil læti.
Húsið var skráð á fyrirtæki sem flutti inn og setti upp einingarhús en Björn var í persónulegum ábyrgðum. Hann bað bankann um að gera sig ekki gjaldþrota þegar hann gat ekki lengur greitt af láninu sem hafði hækkað úr 34 milljónum í 76 en var ekki bænheyrður.
„Ég bað ekki um peninga eða neitt, bara um að vera tekinn af þessum dauðalista."
Bíll var einnig grafinn í jörðu við rústir einbýlishússins við Hólmatún og stóð hálfur upp úr. Björn segir að það hafi ekki verið vegna þess að það hvíldi myntkörfulán á honum heldur frekar til skrauts.
Kona Björns er farin til útlanda að vinna, sjálfur á hann ekki fast heimili í augnablikinu. Hann segist ekki sjá eftir neinu, hann myndi gera þetta aftur, jafnvel tvisvar eða þrisvar. En þegar hann er spurður hvort hann myndi hvetja aðra í sömu sporum til að fara eins að, svarar hann því til að þeir ráði sjálfir hvað þeir geri. Hann hvetji ekki til þess, þetta fari alveg með húsin.