Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt þrjá karlmenn, framkvæmdastjóra, stjórnarmann og fjármálastjóra fyrirtækis, í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum framin í rekstri einkahlutafélags. Mönnunum er einnig gert að greiða 12,6 milljónir kr. í sekt til ríkissjóðs, eða 4,2 milljónir á mann. Vangoldin staðgreiðsla nam 6,3 milljónum.
Tveir mannanna játuðu brot sín skýlaust en framkvæmdastjórinn neitaði sök. Bar framkvæmdastjórinn við að hann hefði aðeins gengt stöðunni til málamynda, fyrir stjórnarmanninn sem sjálfur gat ekki sinnt starfinu vegna fjárhagserfiðleika. Sjálfur hafi maðurinn staðið fyrir húsbyggingum á vegum félagsins sem verktaki. Hann sagðist ekkert hafa komið nálægt bókhaldi eða neinu slíku og enga hugmynd haft um stöðu staðgreiðslumála. Hinir tveir staðfestu framburð mannsins.
Héraðsdómur sakfelldi manninn þó og segir í dómnum að þótt engin ástæða sé til að efast um framburð mannsins sé ekki hægt að líta framhjá því að hann var skráður framkvæmdastjóri og hafði því tilteknar skyldur samkvæmt einkahlutafélagalögum. Honum mátti vera það ljóst að hann tók á sig tilteknar skyldur, þar á meðal annast daglegan rekstur félagsins.