Gjaldþoli ríkisins ekki stefnt í hættu

Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi.
Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að engar líkur væru á Ísland verði gjaldþrota vegna Icesave-samninganna. Vísaði hún til öryggisákvæðis í samningnum um að samningarnir verði teknir upp fari svo fer að Ísland eigi í erfiðleikum með að standa í skilum.

„Ef það væri einhver minnsta hætta á að við værum að stefna þjóðinni í gjaldþrot eða veita aðgang að innlendum eigum ríkisins þá myndi ég ekki styðja slíkan samning, það er alveg ljóst," sagði Jóhanna þegar hún svaraði fyrirspurnum á Alþingi í dag. Hún bætti við, að ef eitthvað slíkt kæmi í ljós myndi hún ekki styðja væntanlegt frumvarp um ríkisábyrgð vegna samkomulagsins.

Þingmenn hafa í dag spurt Jóhönnu um ýmis atriði varðandi Icesave-samkomulagið.  Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokks, spurði m.a. hvort þær 230 milljónir punda, sem safnast hafa inn á biðreikning hjá Englandsbanka vegna afborgana af lánum, sem Landsbankinn veitti í Bretlandi, myndu ganga beint til að lækka höfuðstól skuldarinnar við breska ríkið eða hvort bíða þyrfti þar til hefðbundninni kröfumeðferð Landsbankans ljúki. 

Jóhanna sagðist ekki geta svarað því hvort þessi fjárhæð gangi beint inn í þrotabú bankans og renni til slitastjórnarinnar og verði meðhöndluð eins og aðrar eignir til ráðstöfunar til kröfuhafana.

Eygló sagðist vera slegin yfir því, að forsætisráðherra viti ekki hvort Íslendingar geti ráðstafað eignum Landsbankans.  „Er það ekki meginforsendan fyrir því að við samþykkjum ríkisábyrgð, að eignir Landsbankans gangi upp í að greiða lánið sem verið er að taka?" spurði Eygló.  Jóhanna svaraði að Icesave-kröfurnar njóti væntanlega ákveðins forgangs samkvæmt neyðarlögunum.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði Icesave-málið einkenndist af hálfsannleik, leynd og blekkingum. Sagði hann, að nú væri að koma í ljós að samningarnir væru ekki milliríkjasamningar heldur bæru þeir öll einkenni lánasamninga þar sem annar aðilinn fari á hnjánum til lánardrottins og undirgangist skilmála sem hann setji.

Spurði hann Jóhönnu, úr því hún héldi því fram að ekki væri verið að setja eignir þjóðarinnar að veði, fyrir hverju meirihluti ríkisstjórnarinnar ætlaði veita ríkisábyrgð. Sagðist Höskuldur ekki sjá betur en Íslendingar væru að veðsetja eignir þjóðarinnar, þar á meðal gjaldeyrisvarasjóðinn, sem er blóð íslenska þjóðarbúsins.

Jóhanna svaraði því skýrt, að ekki væri verið að veðsetja gjaldeyrisvarasjóðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert