Heildarmyndin ekki komin

Nauðsynlegt að halda uppi framkvæmdastiginu í landinu.
Nauðsynlegt að halda uppi framkvæmdastiginu í landinu. mbl.is/Ómar

Í frumvarpi fjármálaráðherra um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem dreift var á Alþingi í kvöld kemur fram að virðisaukaskattur á ýmsar neysluvörur sem lækkuðu um 7% hækki á ný upp í 24,5%. Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ sagði við mbl.is að við þetta myndi vísitala neysluverðs hækka um 0,25%.

„Þetta er þessi svokallaði sykurskattur sem þarna er verið að tala um," sagði Gylfi en hann fékk stutta kynningu á frumvarpinu í dag hjá formanni fjárlaganefndar alþingis.

„Heildarpakkinn ekki kominn"
Um hækkanir á álögum og niðurskurð ríkisins í framkvæmdum sagði Gylfi: „Heildarpakkinn er ennþá ekki kominn fram og því er erfitt að hafa skoðun á einstaka liðum þegar við vitum ekki hvaða áform ríkisstjórnin hefur í þessum efnum 2010, 2011, 2012 og 2013 og þar fram eftir götunum."

„Við höfum auðvitað miklar áhyggjur af því hvað á að ganga langt í skattahækkunum 2011. Það er líka erfitt að skoða niðurskurð til framkvæmda í þessu frumvarpi án þess að geta skoðað það í samhengi við það hvaða aðrar framkvæmdir verða þá hugsanlega settar í gang sem hægt væri að fjármagna utan ríkisreiknings."

Gylfi sagðist eiga von á fyllri skýrslu um frumvarpið á næstu dögum. „En eins og er þetta ekki það upplag sem við getum byggt okkar starf á. Það þarf að vera mun skýrara hver áform ríkisstjórnarinnar eru inn í framtíðina og ef það á að gagnast eitthvað til breytinga á hagstöðu seðlabankans svo ég taki dæmi, þá þarf það að koma fram." sagði Gylfi og bætti því við að það væri mjög þröng staða í framkvæmdageiranum og lagði áherslu á að það væri ámælisvert að fara í harðan niðurskurð þar með tillit til þess atvinnuleysis sem nú ríkir í þeim atvinnugreinum.

„Það er bara mjög mikilvægt að halda framkvæmdastiginu uppi, að öðrum kosti falla tekjustofnar ríkisins saman," sagði Gylfi að lokum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka