Icesave-samningar birtir í dag

Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir kynna Icesave-samkomulagið á fundi …
Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir kynna Icesave-samkomulagið á fundi í Stjórnarráðinu fyrir tæpum hálfum mánuði. mbl.is/Golli

Fjármálaráðuneytið segir, að ákvæði um takmörkun friðhelgisréttinda í Icesave-samningunum við Breta og Hollendinga skapi á engan hátt grundvöll fyrir aðför að eigum íslenska ríkisins hér á landi.
Samningar íslenskra stjórnvalda við Breta og Hollendinga verða birtir í dag.

„Öll umræða um að með ákvæðinu hafi verið opnað fyrir aðför eða fullnustu í eigum íslenska ríkisins hér á landi er því úr lausu lofti gripin og enn langsóttara er að telja að ákvæðið skapi grundvöll fyrir aðför að  íslenskum náttúruauðlindum. Um slíkar fræðilegar spurningar um fullnustu gagnvart íslenska ríkinu hér á landi fer einfaldlega eftir íslenskum fullnusturétti, óháð þessu ákvæði. Rétt er hér einnig að taka fram að gert er ráð fyrir sambærilegum ákvæðum í væntanlegum lánasamningum við Norðurlöndin," segir fjármálaráðuneytið.

Ráðuneytið segir, að samningar Tryggingasjóðs innistæðueiganda og íslenska ríkisins við Bretland annars vegar og Holland hins vegar hafi undirritaðir 5. júní sl. Um sé að ræða einkaréttarlega lánasamninga sem almennt  eru ekki gerðir opinberir nema með samþykki allra aðila. Íslenska ríkið óskaði strax eftir samþykki annarra samningsaðila við því að samningarnir yrðu gerðir opinberir. Veitti  tryggingasjóðurinn strax leyfi fyrir birtingu.

Aðrir samningsaðilar lögðust gegn almennri birtingu en féllust á fyrir sitt leyti að samningarnir yrðu gerðir aðgengilegir fyrir þingmenn í tengslum við meðferð Alþingis á frumvarpi til laga um ríkisábyrgð. Ríkisstjórnin hefur samt ákveðið að birta þá og hefur öðrum samningsaðilum  verið greint frá þessari ákvörðun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert