Klæðning hafnar kröfum Lýsingar

Sigþór Ari Sigþórsson, framkvæmdastjóri Klæðningar.
Sigþór Ari Sigþórsson, framkvæmdastjóri Klæðningar.

Forsvarsmenn Klæðningar ehf. segja óskiljanlegt hvers vegna fjármögnunarfyrirtækið Lýsing hafi tekið af þeim hátt í fjörutíu vinnutæki fyrr á árinu í stað þess að lengja í lánum eða selja kröfur á félagið. Framkvæmdastjóri Klæðningar segir ljóst að Lýsing hafi ekki bolmagn til eðlilegra lánalenginga þar sem fyrirtækið sé í raun gjaldþrota.

Í svarbréfi Klæðningar vegna uppgjörs á fjármögnunarsamningum segir m.a.: „Í samskiptum okkar við Lýsingu hefur Klæðningu orðið ljóst að skv. lögum um fjármálafyrirtæki sé Lýsing í raun gjaldþrota og hafi ekki bolmagn til eðlilegra lánalenginga. [...] Klæðning ehf. skorar á forsvarsmenn Lýsingar hf. að gefa fyrirtækið upp til gjaldþrotaskipta þannig að komast megi hjá meiri skaða hjá einstaklingum og fyrirtækjum vegna háttsemi Lýsingar hf.“

Undir bréfið skrifar Sigþór Ari Sigþórsson, framkvæmdastjóri Klæðningar. Í því segir að Klæðning hafi frá miðju ári 2008 reynt að fá Lýsingu til að lengja í lánum þannig að greiðslubyrði yrði í samræmi við það sem lagt var af stað með þegar lánin voru tekin. „Svo virtist samkvæmt munnlegum ummælum að slíkir samningar væru að komast í höfn og var von á forsvarsmönnum Lýsingar hf. á fund. Í stað þess að mæta á fund mættu menn frá Lýsingu hf og tóku tækin.“

Einnig segir að Klæðning hafi boðist til að kaupa kröfur á félagið og á hærra verði en sem nemur mati Lýsingar á tækjunum í dag.

Í bréfinu er uppgjörinu mótmælt og öllum kröfum Lýsingar hafnað. Meðal annars segir að viðgerðarkostnaður sé að mestu ósundurliðaður og lögfræðikostnaður langt út fyrir það sem kallast meðalhófsregla.

„Ljóst er að Klæðning hefur greitt af samningum sínum við Lýsingu mun hærri upphæð en gera mátti ráð fyrir við undirritun samninga. Í ljósi þess, umræðna um lögmæti slíkra samninga og þá staðreynd að það voru eigendur Lýsingar sem felldu gengið þá telur Klæðning að Lýsing verði ein að bera þá ábyrgð sem af hækkun samninga, riftun og greiðslufalli hefur hlotist,“ segir í bréfinu en jafnframt að óskað sé eftir faglegum viðræðum um verðmatið á vinnutækjunum og uppgjörið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka