Frumvarpi fjármálaráðherra um ráðstafanir í ríkisfjármálum var dreift á Alþingi nú undir kvöld. Samkvæmt því aukast tekjur ríkisins um 10 milljarða á þessu ári auk 10 milljarða greiðslutilfærslna vegna fjölgunar gjalddaga fjármagnstekjuskatts.
Samkvæmt frumvarpinu verður atvinnutryggingagjald hækkað úr 0,65% í 2,21% og gjald í ábyrgðarsjóð launa úr 0,1% í 0,2%. Í öðru lagi er lagt til að virðisaukaskattur á ýmsar neysluvörur hækki í 24,5% frá og með 1. september, þar á meðal sykurvörur af ýmsum toga. Þetta mun hafa í för með sér að tekjur ríkissjóðs aukast um 2,5 milljarða á ári en á árinu 2009 verði tekjuaukinn um 0,7 milljarðar kr. Áhrif á vísitölu neysluverðs vegna þessa eru áætluð um 0,25%.
Í þriðja lagi er lagt til að tekið verði upp tímabundið álag á tekjuskatt hjá einstaklingum með háar tekjur. UM er að ræða sérstakan 8% tekjuskatt af launum hvers einstaklings umfram 700.000 krónur á mánuði. Reiknað er með að þessi breyting geti skilað ríkissjóði nálægt 4 milljörðum kr. á ársgrundvelli, en greiðsluáhrif hennar á árinu 2009 eru talin verða 2 milljarðar kr.
Í fjórða lagi hækkar fjármagnstekjuskattur úr 10% í 15% á tímabilinu 1. júlí 2009 til 31. desember 2009 á fjármagnstekjur sem eru umfram um liðlega 40 þúsund krónur á mánuði. Viðbótartekjur ríkissjóðs af þessari breytingu eru taldar verða um 2 milljarðar á heilu ári, eða 600 milljónir á hálfu ári. Greiðsluáhrif á árinu 2009 verða um 0,3 milljarðar þar sem hluti skattsins skilar sér ekki fyrr en árið 2010. Gert er ráð fyrir að þessi breyting verði tímabundin og að í stað hennar komi almennari breyting á tekjusköttum einstaklinga sem taki gildi um næstu áramót.
Í fimmta lagi er lagt til að skil á afdreginni staðgreiðslu fjármagnstekna verði tíðari, þ.e. ársfjórðungslega í stað almanaksársins frá og með 1. júlí 2009. Um er að ræða tilflutning í innheimtu en ekki viðbótartekjur en greiðsluáhrif þessarar breytingar á tekjuhlið ríkissjóðs gæti numið allt að 10 milljörðum króna á þessu ári.
Í sjötta lagi er lagt til að aðilar sem ekki hafa heimilisfesti hér á landi og bera því takmarkaða skattskyldu, sæti hér skattlagningu vegna vaxta sem þeir fá greidda hér á landi.
Í sjöunda lagi eru í frumvarpinu þrjár greinar sem ætlaðar eru til styrkingar á skattframkvæmd með því að herða skatteftirlit, einkum með fjármálalegum umsvifum fyrirtækja og einstaklinga, m.a. fjármálalegum samskiptum fyrirtækja við eigendur og stjórnendur.
Útgjöld vegna almannatrygginga lækka
Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um almannatryggingar sem fela í sér:
Í greinargerð með frumvarpinu segir, að á árinu 2008 hafi náðst fram miklar réttarbætur til handa öldruðum og öryrkjum í formi afnáms makatenginga, hækkunar bóta, hækkaðs frítekjumarks vegna atvinnutekna, sérstaks frítekjumarks á lífeyrissjóðstekjur öryrkja, sérstaks frítekjumarks á fjármagnstekjur og lækkunar skerðingarhlutfalls ellilífeyrisþega. Óhjákvæmilegt sé að stíga skref til baka við núverandi aðstæður.
Fram kemur, að litið sé svo á að um tímabundnar ráðstafanir sé að ræða sem taki mið af því efnahagsástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu. Jafnframt sé mikilvægt, að áfram verði unnið að endurskoðun almannatryggingakerfisins í því skyni að gera það einfaldara og gagnsærra en þó fyrst og fremst með bættan hag aldraðra og öryrkja í huga.
Þá segir, að hagur tekjulægstu lífeyrisþeganna sé varinn og að ekki verði hreyft við sérstakri uppbót á lífeyri sem sett var með reglugerð á síðasta ári með stoð í lögum um félagslega aðstoð og nemur nú 180.000 kr. á mánuði fyrir þá lífeyrisþega sem búa einir en 153.500 kr. fyrir þá lífeyrisþega sem ekki njóta heimilisuppbótar.
Þá er lagt til, að hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði miðist við meðaltalsmánaðartekjur foreldra, að fjárhæð 437.500 kr. þannig að mánaðarleg útgreiðsla sjóðsins til foreldris verði að hámarki 350.000 krónur.
Hámark verður sett á gjafsóknarfjárhæðir í einkamálum og er gert ráð fyrir að 20 milljónir króna sparist á þessu ári. Einnig er lagt til að þóknun, sem greidd er úr ríkissjóði vegna verjenda og réttargæslumanna í sakamálum, lækki um 12%. Árlegur sparnaður vegna þess er áætlaður 40 milljónir og að á þessu ári muni kostnaðurinn lækka um 20 milljónir.
Framlög úr ríkissjóði til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands, svonefnd sóknargjöld verður lækkað og á með því að lækka útgjöld ríkisins á þessu ári um 150 milljónir og um 300 milljónir á næsta ári.
Í lögum um greiðslur til þolenda afbrota er kveðið á um að ekki skuli greiddar bætur nema krafan sé hærri en 100.000 kr. Lagt er til í þessu frumvarpi að viðmiðunarfjárhæðin verði hækkuð í 400.000 kr. Með breytingunni er gert ráð fyrir því að útgjöld á þessu ári geti lækkað um 30 milljónir og að árleg kostnaðarlækkun fyrir ríkissjóð geti verið allt að 60 milljónum.
Loks eru lagðar til nauðsynlegar lagabreytingar vegna áforma ríkisstjórnarinnar um að spara kostnað við þjóðlendumál á þessu ári og næstu tveimur árum. Áætlaður sparnaður vegna þessara ráðstafana eru nálægt 40 milljónir króna.