Virðisaukaskattur af matvörum á borð við sælgæti, súkkulaði, gos, kolsýrt vatn, ávaxtasafa og kex fer úr 7% í 24,5% þann 1. september á þessu ári, samkvæmt stjórnarfrumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem lagt var fram á Alþingi í kvöld.
Um er að ræða sömu vöruflokka og voru í efra þrepi virðisaukaskatts fyrir 1. mars 2007 að viðbættum sykurvörum af ýmsum toga.
Áætlað er að þessi breyting hafi í för með sér að tekjur ríkissjóðs aukist um 2,5 milljarða króna á ári en á þessu ári verði tekjuaukinn um 0,7 milljarðar króna. Áætlað er að þetta muni hækka vísitölu neysluverðs um 0,25% að sögn fjármálaráðuneytisins.
Fyrir 1. mars 2007 voru flestar matvörur í 14% skattþrepi virðisaukaskatts en það þrep lækkaði í 7%. Nokkrir vöruflokkar báru hins vegar 24,5% skatt en þeir lækkuðu einnig í 7%. Þeirri breytingu verður nú snúið við.
Alls er gert ráð fyrir, að þær ráðstafanir, sem kveðið er á um í frumvarpinu, skili ríkinu bættri afkomu á þessu ári upp á 22.360 milljónir króna og 63.363 milljarða á næsta ári.