Skynjar aukinn skilning

mbl.is/ÞÖK

„Reynslan hefur kennt okkur að það skilar yfirleitt litlum árangri að skammast í þjóðum eða ráðamönnum með vísifingurinn á lofti. Árangursríkasta leiðin til að tryggja dýravernd er að koma á samræðum, auka skilning manna á málefninu og bjóða heimamönnum aðstoð við að breyta högum sínum,“ segir Robbie Marsland, yfirmaður IFAW (International Fund for Animal Welfare) í London, sem nýverið dvaldi hérlendis og átti m.a. fundi Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra.

Þetta var tólfta heimsókn Marslands til Íslands á rúmum fimm árum en hann hefur verið vakinn og sofinn í baráttunni gegn hvalveiðum hérlendis síðan hvalveiðar í vísindaskyni hófust á ný árið 2003. Á þeim tíma hefur IFAW, að sögn Marslands, látið vinna fyrir sig úttekt á hvalkjötsmarkaði hérlendis, sem mun hafa leitt í ljós að innan við 1% landsmanna hafði á síðustu sex mánuðum fyrir könnun neytt hvalkjöts. Þá hafa samtökin látið taka saman fyrir sig kostnað landsins vegna vísindaveiða, sem reyndist á árabilinu 1989-2005 vera einn milljarður króna, og látið kanna áhrif hvalveiða á orðspor íslenskra fyrirtækja sem starfa á alþjóðavettvangi.

„Við gerðum okkur fljótlega grein fyrir því að í hugum margra Íslendinga voru hvalveiðar tengdar þjóðarímyndinni, vegna þess að hvalveiðar tengjast nýtingu sjávarafurða. Við sáum því að ábendingar okkar þess efnis að hvalveiðar væru grimmúðlegar myndu ekki nýtast sem best í baráttunni, heldur væri vænlegra til árangurs að tala í krónum og aurum. Við höfum því ítrekað bent á að hægt er að hafa mun meiri tekjur af hvalaskoðun en hvalveiðum, bent á að lítill sem enginn markaður sé fyrir hvalkjöt á heimsvísu sem svo aftur þýðir að störf tengd hvalveiðum eru hverfandi en ónýtt tækifæri felast í atvinnusköpun tengdri hvalaskoðun,“ segir Marsland.

Nánar er fjallað um málið í morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert