Umfjöllun um ESB-tillögur lýkur ekki í júní

Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB í Brussel.
Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB í Brussel. mbl.is/GSH

Ljóst er, að utanríkismálanefnd mun ekki ljúka umfjöllun um tillögur stjórnar og stjórnarandstöðu um Evrópusambandið fyrr en í júlí. Yfir áttatíu umsagnir bárust nefndinni um tillögurnar tvær og þessa dagana er verið að ræða við ýmsa hagsmunaaðila, stofnanir og ráðuneyti.

Utanríkismálanefnd fjallar nú um tillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og tillögu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um undirbúning mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu. Frestur til að skila inn umsögnum rann út í byrjun vikunnar og er nefndin nú að kalla til sérfræðinga frá samtökum, opinberum stofnunum og ráðuneytum.

Að sögn Árna Þórs Sigurðssonar, formanns utanríkismálanefndar, fjallaði nefndin um málin á fundi á þriðjudag og í morgun og mun halda fundi nánast daglega í næstu viku. Árni segir ljóst, að ekki verði hægt að afgreiða frumvörpin í júní enda hafi alltaf verið gert ráð fyrir því, að nefndin taki þann tíma sem þurfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert