Af um 20000 ríkisstarfsmönnum hafa um 9000 yfir 400 þúsund krónur í laun á mánuði. Fram kom á blaðamannafundi með oddvitum ríkisstjórnarinnar, þar sem væntanlegar ráðstafanir í ríkisfjármálum voru kynntar, að tekjur þessa hóps verði skoðaðar sérstaklega með tilliti til hagræðingar.
Fram kom á fundinum, að hjá þeim ríkisstarfsmönnum, sem hafa heildarlaun umfram 400 þúsund krónur, skuli í samráði við viðeigandi ráðuneyti og stofnanir yfirfara samsetningu heildarlauna og vinnufyrirkomulag með það að markmiði að laun þeirra sem mest bera úr býtum lækki hlutfallslega meira en þeirra, sem hafa lægri laun.
Þá eru 450 ríkisstarfsmenn með hærri laun en forsætisráðherra en mánaðarlaun hans eru 935 þúsund. Þegar hefur verið lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum um kjararáð, sem ætlað er að framfylgja þeirri stefnu stjórnvalda að enginn ríkisstarfsmaður hafi hærri laun en forsætisráðherra.