Ávöxtuðu fé sjóðsins hjá Kópavogsbæ

Gunnar Birgisson, bæjarstjóri, og Ómar Stefánsson, formaður bæjarráðs Kópavogs, sitja …
Gunnar Birgisson, bæjarstjóri, og Ómar Stefánsson, formaður bæjarráðs Kópavogs, sitja báðir í stjórn lífeyrissjóðsins.

Kjörnir stjórnarmenn Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar lýsa í yfirlýsingu furðu sinni á hörðum aðgerðum Fjármálaeftirlitsins  og fjármálaráðuneytisins gegn stjórn sjóðsins. Fram kemur að laust fé lífeyrissjóðsins hefur á undanförnum mánuðum verið ávaxtað hjá Kópavogsbæ þótt það væri ekki í samræmi við heimildir laga.

Um er að ræða skuldabréf frá Kópavogsbæ, sem um tíma í kjölfar bankahrunsins fór upp fyrir 10% af heildareignum lífeyrissjóðsins.  Bæjarstjóri Kópavogs og formaður bæjarráðs sátu í stjórn sjóðsins, sem nú hefur verið sett af.

Í yfirlýsingunni segir að stjórn sjóðsins og framkvæmdastjóri hafi ítrekað og að eigin frumkvæði upplýst fulltrúa FME um fjárfestingar hans.

 Yfirlýsingin fer í heild hér á eftir:

Yfirlýsing frá kjörnum stjórnarmönnum LSK

Kjörnir stjórnarmenn Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar (LSK) af hálfu bæjarstjórnar og starfsmanna, lýsa furðu sinni á hörðum aðgerðum Fjármálaeftirlitsins (FME) og fjármálaráðuneytisins, sem skipað hafa umsjónarmann með sjóðnum, þrátt fyrir að stjórn hans og framkvæmdastjóri hafi ítrekað og að eigin frumkvæði upplýst fulltrúa FME um fjárfestingar hans.

Í efnahagsumrótinu á umliðnum vetri tók stjórn LSK yfirvegaða og upplýsta ákvörðun um, að besta leiðin til að verja hagsmuni sjóðfélaga væri að ávaxta laust fé sjóðsins til skamms tíma hjá Kópavogsbæ, þótt það væri ekki í fullu samræmi við heimildir, enda ber Kópavogsbær fulla ábyrgð á öllum skuldbindingum sjóðsins umfram eignir.

Í endurskoðunarbréfi PricewaterhouseCoopers hf. með ársreikningi LSK 2008, dags. 18. maí sl., segir m.a.:

„Þótt ekki sé ástæða til að draga í efa að með þessum ráðstöfunum sínum hafi stjórnendur sjóðsins talið sig vera að tryggja sem best hag sjóðsins við óvenjulegar efnahagsaðstæður þá verður ekki hjá því komist að við sem endurskoðendur sjóðsins, sbr. 42. gr. [laga nr. 129/1997], gerum stjórn sjóðsins og Fjármálaeftirlitinu þegar í stað viðvart um þessi atvik."

Á fundi, sem LSK boðaði til með fulltrúum FME 19. maí sl., var gert  samkomulag um, að sjóðurinn hefði frest til 31. júlí nk. til að gera úrbætur í samræmi við fjárfestingarheimildir. Það samkomulag hefur FME og fjármálaráðuneytið ákveðið nú að virða ekki.

Hér er um að ræða verðtryggt skuldabréf, útgefið af Kópavogsbæ, sem var undir lögbundnu 10% hámarki af heildareignum LSK, þegar það var gefið út. Vegna verðbólgu og áfallinna vaxta auk eignarýrnunar LSK í tengslum við bankahrunið, fór uppreiknað verð bréfsins yfir 10% hámarkið í 10,57% af heildareignum sjóðsins.

Vegna góðrar ávöxtunar sjóðsins það sem af er árinu, er hlutfallið nú þegar orðið lægra og innan lögboðinna marka.

Öðrum kröfum FME um úrbætur hefur verið sinnt.

Við treystum því, að þegar fjármálaráðuneytið og FME hafa kynnt sér alla málavöxtu, liggi fyrir að hagsmunir sjóðfélaga hafi verið hafðir að leiðarljósi.

Gunnar I. Birgisson, formaður
Sigrún Guðmundsdóttir, varaformaður
Flosi Eiríksson, ritari
Jón Júlíusson, stjórnarmaður
Ómar Stefánsson, stjórnarmaður"

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert