Nokkur erill var hjá lögreglunni á Akureyri í nótt en þar standa nú yfir Bíladagar og hafa þeir dregið sér einhvern mannfjölda. Eitthvað var um drykkju og stympingar og þá var mikið kvartað undan hávaða í ökutækjum víða um bæinn í nótt. Einn situr í fangageymslum. Fjórir voru teknir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna og sex vegna hraðaksturs.
Lögreglan annars staðar mun hafa átt fremur rólega nótt. Tilkynnt var um eina innbrotstilraun í Hafnarfirði og farið var inn í fyrirtæki í Höfðahverfi og þaðan haft eitthvert þýfi á brott með sér, þar á meðal flatskjá.
Slökkvilið fór í eitt útkall. Tilkynnt var um leka í Hafnarfirði og haldið var að hann tengdist mögulega því að rafmagnið var tekið af í bænum milli 1 og 5 í nótt vegna vinnu við aðveitulínu. Lekinn reyndist þó vera vegna blásara í iðnaðarhúsnæði og tókst fljótt að komast í veg fyrir hann.