Fjallkonurnar sem gengu á Hvannadalshnúk í dag voru 92, tvær heltust úr lestinni á leiðinni. Þær fyrstu náðu toppnum um kl. 15.30 en saman stóð hópurinn á toppnum kl. 16.
Framan af morgni var veður einstaklega gott en þegar komið var upp á öskjubrún eldfjallsins (Öræfajökuls) í 1840 metra hæð versnaði skyggni auk þess sem vindur jókst aðeins.
Ekkert kom þó í veg fyrir að hópurinn héldi áfram og að lokum stóðu þær sigri hrósandi á hæsta tindi. Síðustu hópar eru enn að fikra sig niður hlíðar Sandfells og má vænta þess að þær komi til byggða innan tíðar.
Elsa Gunnarsdóttir fjall- og leiðsögukona er á leið niður með síðasta hópnum sagði að það hafi verið mjög gaman að standa á toppnum með svo stórum hópi kvenna á öllum aldri. „Það var kalt og hvasst og við stoppuðum ekki lengi en það var gaman," sagði Elsa í samtali við mbl.is.
Elsa reiknaði með að síðasti hópurinn næði til byggða um klukkan hálf tíu í kvöld.
Sjá nánar á vefsíðu Íslenskra fjallaleiðsögumanna.