Hert skatteftirlit boðað

Skatteftirlit verður hert og kemur fram í frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem lagt var fram á Alþingi í gærkvöldi, að mannafli við skatteftirlit og skattrannsóknir verði aukinn um a.m.k. 10 stöðugildi á næstu mánuðum. Gera stjórnvöld ráð fyrir, að kostnaður við það skili sér þegar á fyrsta hálfa árinu en að bætt skattskil nemi margfaldri þeirrri upphæð á næstu árum.

Samkvæmt frumvarpinu á einkum að herða skatteftirlit með fjármálalegum umsvifum fyrirtækja og einstaklinga, m.a. fjármálalegum samskiptum fyrirtækja við eigendur og stjórnendur.

Fjármálaráðuneytið segir, að  fjölmörg dæmi hafi komið í ljós í kjölfari bankahrunsins sem séu tilefni fyrir skattyfirvöld til athugunar og sé það áform stjórnvalda að styrkja stofnanir skattkerfisins á næstunni að mannafla í þeim tilgangi að efla skatteftirlit.

Í frumvarpinu segir, að algeng viðbrögð skattaðila við athugun skattyfirvalda, einkum þegar um sé að ræða flókin viðskiptamál og í þeim tilvikum að gögn um viðskiptin eru ekki aðgengileg hér á landi, séu að afhenda ekki eða draga úr hömlu að afhenda lögboðnar upplýsingar. Miði breytingarnar að því að bæta þar úr, annars vegar með heimild til að beita dagsektum og hins vegar með því að skattstjóri geti vikið framtali að hluta eða öllu leyti til hliðar og ákvarðað skattstofna á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga. Þá er lagt til að skattstjóri geti lokið skattalegri meðferð máls og komið á álagningu án þess að kanna hvort refsivert athæfi kunni að vera til staðar.

Breytingarnar fela m.a. í sér markvissari stýringu skatteftirlitsmála og að skattstjórum verði gert kleift að ljúka skattalegri meðferð mála þótt þau kunni í framhaldinu að fara í brotarannsókn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert