Icelandair flytur svæðisskrifstofu

Icelandair. Boeing 757.
Icelandair. Boeing 757.

Ákveðið hefur verið að flytja svæðisskrifstofu Icelandair í Bandaríkjunum frá Columbia í Maryland til Boston. Einnig verður hluti af starfsemi félagsins ytra fluttur til Íslands. Um er að ræða aðgerðir í hagræðingarskyni, og gert er ráð fyrir að störfum á skrifstofunni verði fækkað um fjörutíu.

Eftir breytingarnar verður áhersla verða lögð á markaðs- og sölustarf á svæðisskrifstofunni. Farmiðaútgáfa, verðlagning, bókhald og ákveðin starfsemi Icelandair Holidays verður að stórum hluta flutt yfir til aðalskrifstofu félagsins. Ráðgert er að flutningum verði lokið um miðjan ágúst.

Fyrir um ári síðan störfuðu um sjötíu manns á svæðisskrifstofunni í Maryland, en aðeins er gert ráð fyrir þrjátíu starfsmönnum á nýju skrifstofunni í Boston. Að undanförnu hefur starfsemi þjónustuvera einnig verið flutt hingað til lands og er símtölum viðskiptavina austan hafs og vestan því svarað á Íslandi.

Svæðisskrifstofa Icelandair hefur verið staðsett í Cloumbia í Marylandfylki í um tvo áratugi en var lengst af í New York. Svæðisstjóri Icelandair fyrir Bandaríkin og Kanada er Þorsteinn Egilsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert