Fréttaskýring: Útgönguákvæði ekki afdráttarlaust

Icesave reikningarnir voru á vegum Landsbankans.
Icesave reikningarnir voru á vegum Landsbankans. mbl.is/Golli

LÁNASAMNINGAR breskra og hollenskra yfirvalda við hinn íslenska Tryggingasjóð innstæðueigenda vegna Icesave-skuldarinnar voru gerðir opinberir í gær.

Samningarnir eru keimlíkir að nánast öllu leyti nema hvað í þeim breska er ákvæði sem kallast „ábyrgð lánveitanda og FSCS [innsk. blaðam.: tryggingasjóður innstæðueigenda í Bretlandi].“

Þar er tiltekið að hvorki breska ríkið né innstæðutryggingakerfi þess sé ábyrgt fyrir þeim kostnaði eða því tapi sem Íslendingar urðu fyrir vegna aðgerða gagnvart Landsbankanum fyrir gerð samkomulagsins.

Með öðrum orðum er það bundið í samninginn að Íslendingar geta ekki gert Breta ábyrga fyrir því tjóni sem skapaðist vegna frystingar eigna Landsbankans.

Ekki afdráttarlaust

Þá eru alls ellefu gjaldfellingarákvæði í báðum samningunum. Þar eru tilteknar þær aðstæður sem gera löndunum tveimur kleift að gjaldfella lán Íslendinga. Íslendingar eru einnig með útgönguákvæði ef allt fer á versta veg í fjármálum landsins. Það er þó ekki jafn afdráttarlaust og margir höfðu vonast eftir.

Í því segir að endurskoða megi samninginn ef mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) á greiðsluþoli Íslands hafi versnað verulega.

Ef þetta ákvæði er nýtt þá samþykkja lánveitendurnir að funda með Íslendingum til að ræða ástandið og íhuga hvort og þá mögulega hvernig samkomulagið eigi að breytast í takt við minnkandi greiðsluþol íslenska ríkisins.

Engin ákvæði eru í samningnum sem gera lánveitendunum kleift að ganga á innlendar eignir ríkisins ef Íslendingar geta ekki staðið við greiðslur. Það verður því ekki hægt að ganga á til dæmis náttúruauðlindir Íslendinga.

Lokaákvæði samninganna, sem kallast „afsal friðhelgi fullveldis“, fjallar um aðstæður sem skapast ef til greiðslufalls kemur af hálfu ríkissjóðs Íslands, sem þýðir í raun að ríkissjóður væri gjaldþrota. Þá gætu lánardrottnarnir gengið að eigum ríkisins erlendis.

Staðfestir fyrri fregnir

Að öðru leyti staðfestir lánasamningurinn það sem áður hefur komið fram. Lán Hollendinga er um 1.329 milljónir evra og lán Breta um 2.350 milljónir punda. Það gerir tæplega 700 milljarða króna miðað við það gengi sem var þegar samningarnir voru gerðir þann 5. júní. Vextir eru 5,55 prósent og reiknast frá 1. janúar síðastliðnum og lánið er til fimmtán ára. Fyrstu sjö árin þarf ekki að greiða af láninu en eignir Landsbankans eiga þó að notast til að ganga upp í það á þeim tíma. Síðan á hinn íslenski Tryggingasjóður innstæðueigenda að greiða upp lánið í 32 afborgunum eða með ársfjórðungslegum afborgunum. Íslenska ríkið er í ábyrgð fyrir láninu og það kemur í ljós árið 2016 hverjar eftirstöð 

„Þarf ansi mikið að ganga á“

„Það þarf nú ansi mikið að ganga á þannig að eigur íslenska ríkisins komist í hendur Hollendinga og Breta,“ segir Jóhannes Karl Sveinsson hrl. um þau viðhorf að samningar við Hollendinga og Breta vegna Icesave feli í sér afsal á friðhelgi fullveldis Íslands. Magnús Thoroddsen, hrl. og fyrrverandi forseti Hæstaréttar, sagði m.a. í fréttum RÚV í gær að hann myndi ekki samþykkja samninginn vegna ákvæðis sem hann teldi að fæli í sér afsal á fullveldi. Á grundvelli þess gætu Hollendingar og Bretar gert fjárnám í eigum íslenska ríkisins.

Jóhannes Karl segir þau viðhorf byggja á ákvæðum sem séu alþekkt í samningum ríkja. „Þegar verið er að lána ríkjum, sem fara þannig með löggjafarvald hjá sér, þá er verið að tryggja það að ríki breyti ekki reglunum sem geti leitt til þess að lán verði ótrygg. Þetta er alþekkt í lánum til ríkja, sjóða og fyrirtækja í opinberri eigu. Þetta hefur ekkert með afsal á fullveldi að gera.“

Icesave-innistæður eru forgangskröfur í krafti neyðarlaga

Sú skuld sem skapast vegna Icesave er forgangskrafa í þrotabú gamla Landsbankans samkvæmt neyðarlögunum. Þær standa því samhliða innlendum innistæðum í kröfuhafaröð bankanna. Þar sem spár gera ráð fyrir því að eignir gamla Landsbankans nægi til að standa skil á einungis 75 til 95 prósentum af höfuðstól Icesave-skuldarinnar er ljóst að aðrir kröfuhafar Landsbankans munu ekki fá kröfur sínar greiddar. Nokkuð ljóst er að þeir muni höfða mál gegn Landsbankanum þegar kröfufrestur í bú hans er liðinn, en hann rennur út næsta haust, til að reyna að fá neyðarlögunum hnekkt.

Ef ákvæðum neyðarlaganna um forgang innistæðna yrði hnekkt þá væru Icesave-skuldirnar einungis lítill hluti þeirra vandamála sem það myndi hafa í för með sér. Ríkissjóður færði nefnilega allar eignir gömlu bankanna yfir í þá nýju til að bakka upp innistæður í íslensku bönkunum við fall þeirra á þeim forsendum að þær væru forgangskröfur. Ef þeim forsendum yrði hnekkt þá myndi sú gjörð einnig dæmast ólögmæt og íslenska ríkið sæti uppi með ábyrgð á öllum íslensku bankainnistæðunum líka.

Vilja láta banka borga

Þær eignir Landsbankans sem fara í greiðslu á Icesave-skuldinni voru metnar á 1.195 milljarða króna í febrúar síðastliðnum. 55 prósent eignanna voru útlán til viðskiptavina.

Mikill vilji er fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að hækka greiðslur íslenskra banka og sparisjóða til Tryggingasjóðs innstæðueigenda og láta þær viðbótargreiðslur renna upp í Icesave-skuldirnar, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Með þeim hætti yrðu fjármálafyrirtæki framtíðarinnar látin greiða fyrir syndir forvera sinna í stað þess að þær greiðslur kæmu beint úr ríkiskassanum. Samkvæmt núgildandi lögum þarf heildareign Tryggingasjóðsins að nema einu prósenti af meðaltali tryggðra innistæðna frá árinu á undan. Þessa prósentutölu er vilji fyrir að hækka.

Samningurinn við Bretland

Samningurinn við Holland

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka