Jarðskjálfti sem fyrstu tölur benda til að hafi verið um 4,2 á Richter mældist um 8 km norðaustur af Grindavík við Fagradalsfjall. Friðjón Magnússon eftirlitsmaður hjá Veðurstofunni sagði að í kjölfarið hefðu komið margir smærri kippir í hrinu sem enn stendur yfir.
Stóri skjálftinn fannst vel á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Skjálftinn virðist hafa stefnt til norðurs því við lauslega könnun meðal íbúa í Grindavík kom fram að skjálftinn virðist ekki hafa verið snarpur þar.
„Nei, ég varð ekki vör við neitt, ég hef trúlegast setið í stól með lappirnar uppi á borði hér í vinnunni í Íþróttamiðstöðinni og hefði því átt að finna fyrir þessu," sagði Þórhildur Einarsdóttir íbúi í Grindavík.
Starfsfólkið og gestir á veitingastaðnum Brim fundu sömuleiðis ekki fyrir nokkrum skjálfta og sagði Halla Káradóttir í samtali við mbl.is að hún hefði ekki orðið vör við að leirtauið hreyfðist að ráði.
Skjálftinn fannst vel á höfuðborgarsvæðinu og Díana Signý Hafsteinsdóttir sem býr í Innri-Njarðvík sagðist hafa bæði fundið fyrir og heyrt vel í skjálftanum á efri hæð í raðhúsi sínu.
„Við reyndar fundum ekki jafn sterklega fyrir honum og stóra skjálftanum um daginn, en þessi var mýkri og stóð styttra yfir en við heyrðum alveg í honum og fundum smá titring.
Í fyrstu vorum við ekki viss hvað þetta væri en urðum svo öll sammála um að þetta hlyti að hafa verið jarðskjálfti," sagði Díana Signý við mbl.is.