„Þetta er stór dagur, mér finnst ég hafa fengið vissa úrlausn mála,“ segir Sigrún Pálína Ingvarsdóttir.
Sigrún átti fund með Kirkjuráði í dag, ásamt fjölskyldu sinni, til að greina frá sárri reynslu sinni sem hún varð fyrir af hálfu sr. Ólafs Skúlasonar er hún leitaði til hans sem sóknarprests.
„Kirkjuráð hefur beðist afsökunar og biskup, og þetta er góður liður í því að ég nái sáttum, ekki síst við Þjóðkirkjuna,“ segir Sigrún Pálína.
Sigrún Pálína vonast nú til að hafa rutt veginn fyrir aðrar konur sem eru enn í sárum. Spurningin er hvað kirkjan geri í málum hinna kvennanna sem urðu fyrir sömu reynslu.
„Þetta hefur legið þungt á mér síðan, enda kom fram alls konar óhróður um mig sem ég sá meðal annars ef ég „gúglaði“ nafnið mitt.“ Sigrún kveðst einnig hafa verið hædd og lygar bornar á hana í bók séra Ólafs sem síðar kom út.
Ekki var gefin út ákæra þegar Sigrún steig fram árið 1996. Skilaboðin sem hún fékk hafi verið þau að ekki borgaði sig að stíga fram eða segja frá hlutunum.
Sigrún „flúði land“ vegna málsins fyrir þrettán árum, og hefur búið í Danmörku síðan. Henni finnst mikilvægt að hafa nú fengið uppreisn æru, að fólk hér á landi viti að hún hafi sagt satt.
„Ég finn nú fyrir breyttu viðhorfi hjá kirkjunni og mér er trúað. Fyrir þessum þrettán árum þótti óhugsandi að sitjandi biskup væri kynferðisafbrotamaður en nú hafa ýmis gögn komið fram í málinu.“
Femínistafélagið heiðraði Sigrúnu í dag, á kvennadaginn, ásamt tveimur öðrum konum fyrir hugrekki og staðfestu.
„Ég stóð þarna við hliðina á ráðherrunum,“ segir hún og hlær. „Þetta var mikill heiður.“