Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Dorrit Moussaieff, forsetafrú, hafa þegið boð grænlensku heimastjórnarinnar og grænlenska þingsins um að vera viðstödd hátíðarhöld á þjóðhátíðardegi Grænlendinga á unnudag vegna þeirra tímamóta sem nú verða í sjálfstjórn Grænlendinga.
Margrét Danadrottning, Hinrik prins, Friðrik krónprins og María krónprinsessa verða einnig viðstödd hátíðarhöldin sem og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir forseti Alþingis, sendimenn erlendra ríkja og fulltrúar annarra þjóða.
Dagskrá hátíðarhaldanna hefst að morgni sunnudagsins með skrúðgöngu og hátíðarguðþjónustu í Frelsarakirkjunni í Nuuk. Kl. 10:30 að staðartíma hefst athöfn í grænlenska þinghúsinu til staðfestingar á lögum um sjálfstjórn Grænlendinga. Eftir hádegið verður m.a. opnuð viðamikil sýning tengd grænlenskum mennta- og menningarmálum. Dagskránni lýkur með hátíðarkvöldverði. Í aðdraganda hátíðardagskrárinnar verður opnuð vörusýning laugardaginn 20. júní.
Ólafur Ragnar mun jafnframt heimsækja tvær stofnanir meðan á dvöl hans á Grænlandi stendur, Náttúrufræðastofnun Grænlands og Veðurstofuna. Þar mun hann kynna sér rannsóknir sem tengdar eru loftslagsbreytingum og bráðnun jökla á Grænlandi.