Risavaxinn morgunverður

Hvalur 9 kom með tvær langreyðar að landi á fimmta tímanum í morgun eftir að hafa verið úti í rúmlega sólarhring. Kristján Loftsson forstjóri Hvals.segir að hvalirnir hafi veiðst nálægt landi og viðureignin hafi ekki verið erfið, ,,Þeir voru skotnir, thats it.“

Fyrra dýrið var kýr um 61 fet á lengd og flensarar á bryggjunni munduðu verkfærin þegar hún var dregin upp. Mávur tók forskot á sæluna og smakkaði á bráðinni hinn kátasti.  Karl Arthúrsson flensari sagði að sér litist vel á skepnuna og brýndi flensihnífinn sem skyldi nú brúkaður í fyrsta sinn í þrjú ár

Síðast voru veiddar langreyðar árið 2006 en þá veiddust sjö dýr. Þá var mikill viðbúnaður þegar fyrsta skepnan kom að landi. Margmenni á bryggjunni og kunnir stjórnmálamenn munduðu flensihnífana.

Núna voru færri áhorfendur en þó nokkur eftirvænting. Karl segir að það kunni að ráðast af því að skipið hafi siglt í skjóli hátíðarhaldanna á sautjánda júní og fáir orðir þess varir.

Karl skar sér vænan bita úr sporðstykkinu og smakkaði kjötið sem hann sagði afbragðsgott. Kristján Loftsson segir að öll skepnan verði nýtt, kjötið og rengið fryst og beinin brædd. Þá sé markaður fyrir allt kjötið í Japan. Annars væru menn ekki að veiða hvalinn.

Kristján segir hvalveiðar ekkert öðruvísi en aðrar fiskveiðar. Auðvitað sé stemmning að ræsa bátana eftir öll þessi ár, en hann sé enginn skáldsagnahöfundur og eigi erfitt með að finna mjög mergjaða íslensku til að lýsa því. Hann neitaði því þó ekki að hann ætti sér sinn Moby Dick.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka