Dómsmálaráðherra hefur kynnt ríkisstjórninni frumvarp um að nýtt embætti sérstaks ríkissaksóknara verði stofnað, auk þriggja sjálfstæðra saksóknara. Sérstakur ríkissaksóknari myndi þannig starfa við hlið sitjandi ríkissaksóknara, og sinna málum sem snúa að rannsókn bankahrunsins.
„Þetta er til að styrkja rannsóknina í samræmi við ráðgjöf Evu Joly,“ segir Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra. „Það er mjög mikilvægt að styrkja rannsóknina og ég tel að það verði gert með þessum hætti.“
Ragna segir að þetta fyrirkomulag yrði nokkur nýlunda í okkar réttarkerfi, en það er gert að norskri fyrirmynd.
Hinn sérstaki ríkissaksóknari yrði stjórnsýslustigi ofar en Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari. Málum yrði áfram vísað til Ólafs, og í framhaldi til hinna þriggja sjálfstæðu saksóknara sem myndu stýra sinni rannsókn hver fyrir sig.