Styrjöld á Geirsnefi

Hundaeigendur og laxveiðimenn eiga í stríði á Geirsnefi þessa dagana. Hundar mega ekki vera á árbakkanum yfir laxveiðitímann og eigendum hefur verið hótað að hundarnir verði skotnir sé bannið ekki virt.

Hámarkshraði á Geirsnefi er þrjátíu. Fólk ekur þó mun hraðar og ökufantar nota svæðið talsvert til að spyrna. Margoft hefur verið ekið yfir hundana. Hundaeigendur vilja láta loka svæðinu fyrir utanaðkomandi umferð enda sé þetta eina svæðið þar sem hundar mega ganga lausir í Reykjavík.

Þeir benda á að fólk borgi fyrir að hafa hunda í borginni og hundaeigendur eigi heimtingu á því að það sé líka tekið tillit til þeirra þarfa. Geirsnef virðist frekar eftirsóttur staður. Arndís Hauksdóttir hundaeigandi segir að fyrir utan undirheimalýð sem noti svæðið á næturna, bílafanta og laxveiðimenn á bökkum Elliðaár, komi stöku golfarar og skotveiðimenn hafi einnig gert sig heimakomna. Þá hafi tveir menn ætlað að búa í hjólhýsi inni á svæðinu og gera þarfir sínar í runna. Þeim hafi verið bolað burt. Af öðrum óvelkomnum gestum á Geirsnefi nefnir hún verslunarskólanema sem hafi verið að gera tilraunir með hátíðnihljóð. Við það hafi dýrin bókstaflega tryllst.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka