„Það þarf nú ansi mikið að ganga á þannig að eigur íslenska ríkisins komist í hendur Hollendinga og Breta,“ segir Jóhannes Karl Sveinsson hrl. um þau viðhorf að samningar við Hollendinga og Breta vegna Icesave feli í sér afsal á friðhelgi fullveldis Íslands.
Magnús Thoroddsen, hrl. og fyrrverandi forseti Hæstaréttar, sagði m.a. í fréttum RÚV í gær að hann myndi ekki samþykkja samninginn vegna ákvæðis sem hann teldi að fæli í sér afsal á fullveldi. Á grundvelli þess gætu Hollendingar og Bretar gert fjárnám í eigum íslenska ríkisins.
Jóhannes Karl segir þau viðhorf byggja á ákvæðum sem séu alþekkt í samningum ríkja. „Þegar verið er að lána ríkjum, sem fara þannig með löggjafarvald hjá sér, þá er verið að tryggja það að ríki breyti ekki reglunum sem geti leitt til þess að lán verði ótrygg. Þetta er alþekkt í lánum til ríkja, sjóða og fyrirtækja í opinberri eigu. Þetta hefur ekkert með afsal á fullveldi að gera.“