Miklum verðmætum var stolið úr vörubifreið Línuborunar ehf., þar sem hún stóð á vinnusvæði við Nesjavallaveg ofan við Nesjavallavirkjun 11. eða 12. júní sl. Talið er að tjónið hlaupi á nokkrum milljónum króna og biður lögreglan á Selfossi þá sem hafa upplýsingar um málið að hafa samband.
Einnig var brotist inn í vinnuvélar á svæðinu og verkfærum og hljómtækjum stolið úr þeim. Eftirtöldum hlutum var stolið:
Ljósavél af gerðinni SDMO, blá að lit, sex 800 mm steinsagarblöðum, tveimur handsteinsögum, tólf kjarnaborum, tveimur stýriskrónum, Hilti sleðasög, 12 og 24 volta hleðslu- og starttæki, dráttarkeðju, tveimur skafttalíum og Alpine bílageislaspilara.
Lögreglan á Selfossi segir ummerki á vettvangi benda til þess að vörubifreið hafi verið notuð til að flytja búnaðinn á brott.
Þeir sem hafa upplýsingar sem leitt gætu til þess að upplýsa málið eru beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 480-1010.