Vilja yfirlýsingu um að hætt verði við fyringarleið

Flestir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að ríkisstjórninni verði falið að lýsa því yfir, að horfið verði frá fyrirhugaðri fyrningu aflaheimilda sem getið er um í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar.

Illugi Gunnarsson er fyrsti flutningsamaður tillögunnar. Í greinargerð segir að sjávarútvegsráðherra hafi í byrjun júní sent bréf til þingflokka og óskað eftir tilnefningu þeirra í starfshóp sem ætlað sé að endurskoða fiskveiðilöggjöfina. Jafnframt hafi ýmsum hagsmunasamtökum í sjávarútvegi verið boðið að tilnefna fulltrúa í starfshópinn.

Í bréfi ráðherra komi fram að hópnum sé ætlað það hlutverk að láta „vinna nauðsynlegar greiningar og setji að því loknu fram valkosti um leiðir til úrbóta þannig að greininni séu sköpuð góð rekstrarskilyrði til langs tíma, en jafnframt að sátt náist um stjórn fiskveiða“. Starfshópi þessum sé ætlað að skila álitsgerð fyrir 1. nóvember nk. og á grundvelli tillagna hópsins muni ráðherra ákveða tilhögun við endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar.

„Í ljósi þessa er nauðsynlegt að hafa í huga að ein af forsendum þess að slíkt endurmat geti farið fram er að ekki sé fyrir fram búið að ákveða hver niðurstaðan skuli vera. Því er nauðsynlegt að ríkisstjórnin lýsi yfir því að horfið verði frá svokallaðri fyrningarleið í sjávarútvegi. Standi ákvörðun um fyrningu aflaheimilda óhögguð má ljóst vera að hverfandi líkur eru á því að hægt sé að ná sátt um stjórnkerfi fiskveiða," segir m.a. í greinargerðinni.

Þingsályktunartillagan

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka