Bresk stjórnvöld verja hryðjuverkalögin

Breska þinghúsið í Lundúnum.
Breska þinghúsið í Lundúnum. Reuters

Breska fjár­málaráðuneytið hef­ur brugðist við skýrslu fjár­laga­nefnd­ar breska þings­ins þar sem viðbrögð breskra stjórn­valda við ís­lenska fjár­mála­hrun­inu í októ­ber voru gagn­rýnd. Seg­ir ráðuneytið, að ekki hafi feng­ist skýr svör frá ís­lensk­um stjórn­völd­um um hvernig Ísland ætlaði að axla skuld­bind­ing­ar sín­ar vegna inn­láns­reikn­inga ís­lensku bank­anna í Bretlandi.

Breska fjár­laga­nefnd­in sendi í apríl frá sér skýrslu þar sem m.a. sagði, að  bresk stjórn­völd hefðu með aðgerðum sín­um gripið með bein­um hætti inn í fjár­mála­markaðinn og hafi þar með hætt að vera hlut­læg­ur áhorf­andi. Íslensk­um stjórn­völd­um hafi ekki þótt hjálp í þess­um aðgerðum bresku stjórn­ar­inn­ar.

„Í tengsl­um við úti­bú Lands­bank­ans í Bretlandi, þrátt fyr­ir yf­ir­lýs­ing­ar ís­lensku rík­is­stjórn­ar­inn­ar um að hún myndi upp­fylla skyld­ur sín­ar (sam­kvæmt inni­stæðutrygg­ing­ar­kerfi fram­kvæmda­nefnd­ar Evr­ópu­sam­bands­ins) gagn­vart inni­stæðueig­end­um í því úti­búi, þá tókst bresku rík­is­stjórn­inni ekki að fá skýr svör um hvernig Ísland ætlaði að gera það fram­kvæm­an­legt.

Staða breskra lán­ar­drottna gagn­vart skila­nefnd Lands­bank­ans var einnig óskýr. Þetta olli mikl­um áhyggj­um þar sem ýms­ar yf­ir­lýs­ing­ar ís­lenska for­sæt­is­ráðherr­ans bentu til þess, að þótt rétt­indi ís­lenskra inni­stæðueig­enda yrði var­inn kynni rétt­ur annarra inni­stæðueig­enda og lán­ar­drottna, þar á meðal í Bretlandi, að skerðast - og það væri brot á EES-samn­ingn­um. Bresk stjórn­völd gripu til þess­ara aðgerða í ljósi þess­ara áhyggna," seg­ir í til­kynn­ingu sem bresk­ir fjöl­miðlar vitna til.

Frétt um skýrslu fjár­laga­nefnd­ar­inn­ar

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert